Monday, September 30, 2013

Kviður og bak - námskeið


Í vetur verður boðið upp á 4 vikna námskeið í þreksal íþróttamiðstöðvar Bolungarvíkur þar sem áhersla er lögð á sérhæfðar styrktaræfingar fyrir kvið og mjóbak.


Sérhæfðar styrktaræfingar fyrir kvið og mjóbak geta aukið stöðugleikann um hryggsúluna sem getur dregið úr hættu á bakverkja eða dregið úr þeim bakverkjum sem eru til staðar fyrir.
Námskeiðið hentar því vel fyrir þá sem eiga við bakverki að stríða og eins þeir sem vilja læra að viðhalda góðu og heilbrigðu baki.


Námskeiðið verður þrisvar í viku í 4 vikur. Þar verða kenndar æfingar með  jafnvægisbolta og svínahrygg(hálf rúlla) auk almennar æfingar á dýnu til að styrkja mjóbak og kvið. Að auki mun fylgja lítil æfingabók til eignar með þeim almennum æfingum á dýnu sem farið verður í á námskeiðinu.


Aðeins verður tekið við 8 í einu á hvert námskeið en til þess að hægt sé að byrja með námskeið þurfa að lágmarki 6 að hafa skráð sig.


4. vikna námskeið, 3 sinnum í viku mun kosta 10.000 kr.


Til að skrá sig er hægt að hafa samband við Helga Pálsson, sjúkraþjálfara, í síma 869-5145 eða senda tölvupóst á helgipal@gmail.com





Ath. Þeir sem eiga ekki kort í íþróttamiðstöð Bolungarvíkur þurfa að borga sér í þreksalinn í afgreiðslunni en inn í því verði er frítt í sundlaug Bolungarvíkur.

Saturday, September 21, 2013

Álagseinkenni meðal kraftlyftingafólks: Áhrif þeirra á æfingamagn og frammistöðu


Hérna er ágrip úr lokaverkefninum mínu í sjukraþjálfun. En það fjallaði um álagseinkenni meðal kraftlyftingafólks og áhrif þeirra á æfingamagn og frammistöðu.


Kraftlyftingar er keppnisgrein sem á vaxandi vinsældum að fagna á Íslandi og um heim allan. Þó er lítið til af rannsóknum um meiðsl hjá kraftlyftingafólki og engar rannsóknir, sem höfundur þekkir til, um tíðni álagseinkenna meðal kraftlyftingafólks og hvernig þau hafa áhrif á æfingamagn og frammistöðu þeirra sem stunda kraftlyftingar.
Tilgangur rannsóknar var að meta tíðni álagseinkenna yfir 7 daga tímabil hjá kraftlyftingafólki á Íslandi og skoða hvaða áhrif það hefði á æfingamagn og frammistöðu þeirra til að stunda kraftlyftingar ásamt verkjaupplifun.
Þátttakendur í rannsókn voru kraftlyftingafólk innan Kraftlyftingasambands Íslands og voru 32 þeirra notaðir við úrvinnslu gagna. Allir þátttakendur svöruðu sama spurningalistanum sem innihélt þrjá hluta (almennan hluta, æfingarálag og álagseinkenni) og var þriðja hlutanum skipt niður fyrir hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu. Í hnébeygju var spurt um álagseinkenni í öxl, mjóbaki og hné. Í bekkpressu var spurt um álagseinkenni í úlnlið, öxl og mjóbaki og í réttstöðulyftu var spurt út í álagseinkenni í öxl, mjóbaki og hné. Fyrir hvert svæði voru 4 spurningar þar sem þátttakendur áttu að meta álagseinkenni sín, hve mikil áhrif þeir töldu þau hafa á æfingamagn, frammistöðu og hve mikla verki þátttakendur upplifðu við framkvæmd á lyftunum þremur.
Helstu niðurstöður voru þær að nokkuð er um álagseinkenni meðal kraftlyftingafólks og voru þau mest áberandi í hnjám við framkvæmd á hnébeygju (38%), öxl við framkvæmd á bekkpressu (47%) og í mjóbaki við framkvæmd á réttstöðulyftu (34%).
Ályktunin er að spurningalistinn sem notaður var gefur vísbendingu um að nokkuð sé um álagseinkenni meðal kraftlyftingafólks á Íslandi og að þau álagseinkenni sem eru til staðar höfðu töluverð áhrif á þátttakendur rannsóknarinnar.
Ávinningur rannsóknarinnar er að hún gefur vísbendingu um að það þarf að huga betur að þætti álagseinkenna við þjálfun í kraftlyftingum þar sem þau hafa áhrif á æfingamagn og frammistöðu hjá kraftlyftingafólki.

Fyrir þá sem hafa áhuga er hægt að nálgast verkefnið í heild sinni inni á skemman.is eða á slóðinni http://skemman.is/item/view/1946/15196;jsessionid=BA50D26917802DAD8287E9D432ACEF15.

Helgi Pálsson
Sjúkraþjálfari